6.3.2008 | 18:04
Jón Hilmar Sigurðsson fallinn frá
Jón Hilmar Sigurðsson féll frá aðfararnótt 16. febrúar síðastliðinn. Var það mikil harmafregn hér í Úthlíð.
Jón var fæddur og uppalinn í Úthlíð og helgaði líf sitt staðnum fyrstu 32 ár ævi sinnar en þá lenti hann í hörmulegu vinnuslysi sem leiddi til þess að hann snéri við blaðinu, fluttist á mölina og settist á skólabekk. Eftir það varð hann vinsæll líffræðikennari í Verslunarskóla Íslands og víðar.
Ævisaga Jóns er um margt einstök og sýnir að það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Nokkrar minningargreinar voru skrifaðar um Jón og mun ég hengja nokkrar hér við svona fyrir þá sem misstu af blaðinu dagana sem þær birtust.
Hér er einnig bein tenging inn á minningargreinarnar um Jón í Morgunblaðinu og Bjarni Harðarson minnist Jóns, frú Ágústu og sumarsins 1976 á bloggsíðu sinni.
Nokkrir góðir hlauparar minntust hans á bloggsíðum meðal annars Sigurður P. sem skrifaði frábæra grein um Jón á hlaup.is Sigurður P. fer yfir feril Jóns sem langhlaupara, en hann var í senn langur og farsæll. Þótt hann sæti í hjólastól þá var hann ekkert að hika við að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis, fékk sér bara skíðastafi og skellti sér í hópinn. Hann átti nú alveg frábæran tíma í hálfu maraþoni, miðað við hvað það er strembið. Honum fannst samt skemmtilegast að "hlaupa" í Brúarhlaupinu á Selfossi og mig minnir að hann hafi farið 1/2 maraþon þar oftar en einu sinni. Honum fannst Ungmennafélag Selfoss standa lang best að hlaupinu af öllum þeim sem sjá um svona hlaup. Meðal annars talaði hann um að það væri til fyrirmyndar fyrir aðra að á Selfossi er öllum götum og vegum lokað meðan á hlaupinu stendur.
Ég sem starfsmaður Glitnis hef tekið virkan þátt í að gera Reykjavíkurmaraþon Glitnis að þeim stórviðburði sem það er í dag og þegar Glitnir ákvað að heita á starfsfólk sitt að ef það myndi hlaupa þá myndi ákveðin upphæð renna til góðgerðarmála tók ég að sjálfsögðu strax ákvörðun um að vera með. Ég var ekki lengi að ákveða mig ég myndi taka þátt og láta SEM samtökin njóta áheitanna. Var það að sjálfsögðu til heiðurs mínum elskulega frænda sem var mín fyrirmynd og ég hafði alla tíð haft áhuga á að hlaupa langhlaup eins og hann. Eins og ég hef alltaf verið grönn og létt á mér þá gat ég einhverra hluta vegna ekkert hlaupið þegar ég var lítil. Kannski voru kröfurnar meiri en gengur og gerist og fyrirmyndin mun meira en meðal maður þegar kom að langhlaupum. Ég lenti einu sinni í öðru sæti í 800 metra haupi í móti hjá Ungmennafélagi Biskupstungna en árangurinn var nú ekkert merkilegur. Jón sagði að þetta væri nú lélegur tími, ég hefði varla farið upp af gönguhraða. :-) og það var jú alveg rétt hjá honum. Ég vissi ekki áður en ég fór í hlaupið hvað 800 metrar væru langir og þegar ég kom í mark var ég ekkert sérlega þreytt - en það er önnur saga.
Er skemmst frá því að segja að við Jón hittumst oft á meðan ég var að rembast við að æfa mig fyrir Reykjavíkurmaraþonið og hvatti hann mig áfram af miklum móð og svona eins og honum einum var lagið. Stuttu fyrir hlaupið spyr hann mig hvort ég ætli ekki að standa við vegalengdina og hvort ég leggi í hálfa maraþonið og ég var bara brött, hafði nýlega klárað að hlaupa 15 km hring um hraunið í Úthlíð og bjóst bara við því að þetta væri ekkert mál. Þá sagði hann mér sinn besta tíma í hálfu maraþoni í Reykjavík sem hann sagði vera 2 tíma og 20 mínútur. (sé reyndar að hann átti mun betri tíma 1998 þegar hann fór hálft á 2 tímum og 12 mínútum, átta mig ekki á því hvers vegna hann talaði ekki um þann tíma) "Ef þú nærð ekki að komast hálft maraþon á skemmri tíma en ég í hjólastólnum þá ertu nú aalgjöör aumingi" Svona var hann og hans hvatning :-) Ég var með tímann hans á bak við eyrað alla leiðina og verð að segja eins og er að mér leist ekki á blikuna þegar ég tosaðist hægt og bítandi eftir Sæbrautinni á leiðinni til baka og heyrði í karlinum gera grín að mér. En mér tókst að komast í mark á aðeins betri tíma þannig að ég slapp við að vera kölluð auminginn.
Margar góðar minningar á ég frá samverustundum okkar Jóns og þá helst frá því í æsku þegar hann var ennþá heima í Úthlíð. Ég bar óttablandna virðingu fyrir þessum frænda mínum sem var fasti punkturinn í tilverunni. Það voru skemmtilegir dagar í minningunni þegar hann kom úr keppnisferðum en þá hafði hann jafnan eitthvað skemmtilegt og gott í poka handa litla frændfólkinu í sveitinni. Einu sinni komu hjólaskautar sem við notuðum bara í fjósinu því ekki voru hlöðin steypt eins og í dag í Úthlíð.
Svo er ómetanleg minning sem ég á frá því ég var mjög lítil. En einhverra hluta vegna er ég ein á Selfossi með Jóni. Ég átta mig ekki á því hvers vegna við erum þarna á ferð tvö ein því ekki fór Jón erindisleysur að heiman og hvað þá að fara með litla frænku með sér. Mamma hefði nú getað svarað þessari spurningu, en svarið verð ég að fá síðar.
Við fórum í Kaupfélag Árnesinga, en þar var heill veggur alsettur glæsilegum leikfangakössum. Þarna sýndist mér vera hægt að kaupa allt í heiminum, svo mikið var úrvalið af dótinu. Þá segir Jón mér að velja mér það dót sem mig langaði í, hann ætli að gefa mér það. Ég ætlaði varla að trúa mínum eigin eyrum að mega velja dót og það var ekki afmæli og ekki jól. En svona var Jón, hann var svo gjafmildur og örlátur við alla og það þurfti ekkert tilefni til að gefa dót.
Síðustu árin voru alveg einstaklega skemmtileg hjá Jóni, en þá tókust náin kynni með honum og Guðnýju Guðnadóttur. Þeirra vinskapur var náinn og Jón svo natinn og huguslamur í kringum hana, enda Guðný svo sæt og skemmtileg og eflaust alveg frábært að vera með henni og hlæja.
En því miður þá er þessum kafla í lífi okkar allra lokið og eftir lifa góðar og skemmtilegar minningar um alveg einstakan mann.
Blessuð veri minnig Jóns Hilmars Sigurðssonar frá Úthlíð
Hjördís Björnsdóttir
frá Úthlíð
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.