Best að fara í bústað á vorin

gledibunga-solo

Núna er sumarið nú eiginlega komið hingað upp í fjöllin og að sjálfsögðu fagna því allir. Ærnar fara að gera sig líklegar til að fara að bera og birkið er að fara að láta undan þrýstingi og er farið að opna fyrir brumið sitt.

Núna er réttur tími til að hringja í Braga og kanna hvort hann eigi ekki lausan bústað næstu helgar.


Loftið fyllist fuglasöng

Tjaldur[1]Get ekki látið hjá líða að lýsa því sem fyrir augu og eyru ber hér í Úthlíð í dag. Það væri gaman að geta sett inn hljóðfæl með tónlistinni sem hljómar svo fallega.

Tjaldur, stelkur, skógarþröstur, hrossagaukur og hinn svarti krummi eru á ferli. Ég heyrði reyndar ekki í spóanum, en það getur samt vel verið að hann sé kominn líka. Það er nú alltaf mikill sigur á vorin þegar hann mætir og fer að vella grautinn sinn.

Núna er ákaflega stillt veður, logn og þoka. Dásamlegt veður til útivistar og líta til vorboðanna.

Fékk þessa mynd lánaða hjá FSU en Hrafn Óskarsson hefur náð að mynda þetta fallega Tjaldspar.

Tjaldsfjölskylda hefur búið um áraraðir í túninu fyrir neðan kirkjuna og við lónið sem er þar fyrir framan. Vonandi fáum við að njóta návistar þeirra áfram.

Nánar um tjaldinn á náttúrufræðisíðum FSU


Best að vera í sumarbústað í rigningu

Loan er kominNú er rok og rigning í sveitinni. En það er nú það dásamlegasta við sumarbústaði, að það er ekki síður unaðslegt að lúra í kofanum í vondum veðrum en góðum.

Lóan er komin og býður góðan daginn. Hún liggur ekki inni enda vinnusöm á vorin.

Fengum þessa fallegu lóumynd að láni hjá Vísindavefnum.


Gleðilegt sumar

Þá eru góðviðrissumarið mikla 2007 runnið upp.

Þessa sumars á sólbrúnt og brosandi fólk eftir að minnast lengi fyrir einmuna veðurblíðu og skemmtilegar stundir í sælureitnum í Úthlíð Biskupstungum (costa del Uthlid).  Það verður gaman að svamla í sundlauginni, fara hring á golfvellinum, og fá sér síðan öl á barnum á eftir.

Enn er hægt að bóka sumarhús í Úthlíð í síma 699 5500.


GLEÐILEGT SUMAR..............

Erindi Gunnars Karlssonar

Á páskadag var messa í Úthlíðarkirkju. Að lokinni messu var messukaffi í Réttinni. Þar flutti dr. Gunnar Karlsson sagnfræðingur erindi um íslenska kirkjubændur.

Erindi Gunnars fer hér á eftir:

 

Íslenskir kirkjubændur

                                                                             I.GunnarKarls3

Hér skal því haldið fram að kirkjubændur séu upprunalegustu fyrirmenn Íslendinga. Þegar Ísland byggðist fólki, líklega á áratugunum í kringum 900, hafa verið margs konar fyrirmenn í Noregi, konungar, jarlar, hersar og goðar. Konungar, jarlar og hersar hafa sennilega einkum haft hlutverk sem landvarnarmenn og herforingjar, og fyrir slíka menn hefur virst lítil þörf á Íslandi, Atlantshafið varði landið fyrir utanaðkomandi árásum, og innanlandsófriður hefur ekki verið svo mikill meðan land var fábyggt að hann héldi uppi sérstökum herforingjum. Má ætla að þetta sé orsök þess að stöður konunga, jarla og hersa náðu aldrei festu á landinu. Samkvæmt Landnámabók voru nokkrir íslenskir landnámsmenn af ættum manna sem kölluðu sig konunga, jarla og hersa, en aldrei er vitað til að nokkur maður hafi skreytt sig með slíkum titli á Íslandi þangað til Gissur Þorvaldsson gerðist jarl Noregskonungs á síðari hluta 13. aldar.

Goðar höfðu gerólíkt hlutverk: að standa fyrir trúarathöfnum. Beinast liggur við að kalla þá presta, en þar sem kirkjubændur eru umræðuefnið, eins og hér, getum við eins kallað þá heiðna kirkjubændur. Frá hlutverki goða í heiðni er sagt einna skilmerkilegast í Eyrbyggja sögu, sem er raunar varla skrifuð fyrr en hálfri þriðju öld eftir formlega kristnitöku Íslendinga og gæti sem best verið login, og það á við um flest sem ég segi hér. Sjálfur ætla ég ekki að ljúga neinu en kannski gerast svolítið trúgjarn á fornar heimildir. En þetta er það sem Eyrbyggja segir um Þórólf landnámsmann Mostarskeggja á Snæfellsnesi:[i]

Hann setti bœ mikinn við Hofsvág, er hann kallaði á Hofsstçðum. Þar lét hann reisa hof, ok var þat mikit hús; váru dyrr á hliðarvegginum ok nær çðrum endanum; þar fyrir innan stóðu çndvegissúlurnar, ok váru þar í naglar; þeir hétu reginnaglar; þar var allt friðarstaðr fyrir innan. Innar af hofinu var hús í þá líking, sem nú er sçnghús í kirkjum, ok stóð þar stalli á miðju gólfinu sem altari, ok lá þar á hringr einn mótlauss, tvítøgeyringr, ok skyldi þar at sverja eiða alla; þann hring skyldi hofgoði hafa á hendi sér til allra mannfunda. Á stallanum skyldi ok standa hlautbolli, ok þar í hlautteinn sem stçkkull væri, ok skyldi þar støkkva með ór bollanum blóði því, er hlaut var kallat; þat var þess konar blóð, er svœfð váru þau kvikendi, er goðunum var fónat. Umhverfis stallann var goðunum skipat í afhúsinu. Til hofsins skyldu allir menn tolla gjalda ok vera skyldir hofgoðanum til allra ferða, sem nú eru þingmenn hçfðingjum, en goði skyldi hofi upp halda af sjálfs síns kostnaði, svá at eigi rénaði, ok hafa inni blótveizlur.

Áður hefur verið sagt frá því að Þórólfur hafði kastað öndvegissúlum sínum fyrir borð þegar hann kom vestur fyrir Reykjanes. Á annarri súlunni var Þórslíkneski, og mælti Þórólfur svo um að hann skyldi byggja þar á Íslandi sem Þór léti súlurnar koma á land. Síðan segir, skömmu eftir hofslýsinguna sem ég las: „Þar sem Þórr hafði á land komit, á tanganum nessins, lét hann [þ.e. Þórólfur] hafa dóma alla ok setti þar heraðsþing ..."[ii]

Hér er rétt að taka eftir því að Þórólfur goði átti „hofi upp halda af sjálfs síns kostnaði", en „Til hofsins skyldu allir menn tolla gjalda". Þetta er nokkurn veginn sama rekstrarfyrirkomulag og var á bændakirkjum á Íslandi síðar. Líka er eftirtektarvert, þótt ekki komi það stöðu kirkjubænda beinlínis við, að það fylgdi stöðu goðans að hafa dóma og setja héraðsþing. Það lítur út eins og dómstörf hafi tilheyrt trúarsviðinu, og það getur skýrt verksvið goðorðsmanna á Íslandi í kristnum sið.    

Ég kalla goðana ýmist presta eða kirkjubændur og líki hofunum við kirkjur, en þar var auðvitað margt ólíkt. Þannig eru vissar líkur til að hofin hafi bara verið íbúðarhús goðafjölskyldunnar, byggð svo rúmgóð að þar mætti halda blótveislur.   

Einhverjir 36 af þessum körlum sem höfðu komið sér upp hofi og kölluðu sig goða tóku sig saman á 10. öld, stofnuðu Alþingi á Þingvöllum og þóttust þar með hafa skipt íbúum landsins niður á 36 goðorð. Þetta er mín túlkun á heimildunum. Aðrir fræðimenn hafa sumir talið ósennilegt að menn hafi umsvifalaust getað komið sér niður á rétta tölu goðorða því 36 er ekki tilviljunarkennd tala; hún er þrennar tylftir og kemur ítrekað fyrir sem tala dómsmanna í dómum, bæði í Noregi og á Íslandi og líklega víðar. En ég held að réttri tölu goðorða hafi verið náð með því einfaldlega að hópurinn sem gekkst fyrir stofnun Alþingis hafi leitað að 36 goðum og numið staðar í leitinni þegar þeir voru komnir með í leikinn. Hugsanlegt var og vel þekkt síðar að skipta goðorðum milli tveggja eða fleiri manna, og þannig mátti laga tölu goða í héruðum landsins að þeirri tölu goðorða sem þurfti á Alþingi. Þó má ætla að einhverjir goðar hafi verið eftir utan þessa miðstýrða stjórnkerfis sem hafði Alþingi að aðalfundi.

Þetta tek ég fram vegna þess að einmitt hér í Úthlíð bjó maður sem er kallaður goði í heimildum en mönnum hefur reynst erfitt að koma fyrir í stjórnkerfinu. Hann hét Geir Ásgeirsson, dóttursonur Ketilbjarnar gamla landnámsmanns og héraðshöfðingja á Mosfelli. Faðir Geirs hafði þegið af Ketilbirni land og dóttur, samkvæmt Landnámabók:[iii] „Ásgeirr hét maðr Úlfsson; honum gaf Ketilbjçrn Þorgerði dóttur sína ok lét henni heiman fylgja Hlíðarlçnd çll fyrir ofan Hagagarð; hann bjó í Hlíð enni ytri. Þeira son var Geirr goði ok Þorgeirr faðir Bárðar at Mosfelli." Geir þessi kemur líka óvænt fyrir í Landnámu í upptalningu helstu höfðingja landsins um lok landsnámsaldar. Þar eru taldir 18 menn á landinu öllu, eða 19 ef lögsögumaðurinn Hrafn Hængsson er talinn með, og .þarna er Geir goði talinn aleinn manna úr Árnesþingi.[iv] Það er svolítið erfitt að koma þessu heim og saman við aðrar heimildir. Í fyrsta lagi átti Ketilbjörn gamli í beinan karllegg afkomendur sem tóku örugglega við mannaforráðum eftir hann. Sonarsonur hans var Gissur hvíti Teitsson sem gekkst mest fyrir kristnitöku á Íslandi. Því virðist ekki líklegt að dóttursonur Ketilbjarnar hafi hlotið höfðingjastöðu á svæðinu, þótt ekki sé útilokað að þannig hafi verið á einhverju tímabili, ef næsti ættliður í beinan karllegg hefur verið of ungur til höfðingjadóms. Í öðru lagi kemur það illa heim í tíma að sagt er að Geir goði tæki þátt í vígi Gunnars á Hlíðarenda. Frásögn af því er ekki aðeins í hinni ungu og óáreiðanlegu Brennu-Njáls sögu heldur einnig í Hauksbókartexta Landnámu, sem við höfum meiri tilhneigingu til að trúa.[v] Og samkvæmt tímatali Njálu á víg Gunnars ekki að hafa gerst fyrr en um 990 eða sex áratugum eftir lok landsnámsaldar.[vi] Hafi Geir verið orðinn meiri háttar höfðingi um 930 hefur hann varla verið yngri en tvítugur, og þá hefur hann verið orðinn áttræður þegar hann reið austur í Fljótshlíð til að drepa Gunnar. Það er svosem ekki óhugsandi, enda auðvitað gersamlega óvíst að það tímatal sem menn hafa lesið út úr Njálu sé nákvæmlega rétt. En úr því að ég er farinn að tala um Geir goða verð ég að taka fram að lengi hefur verið bent á hofrúst hér í Úthlíð, eins og heimamenn þekkja betur en ég.[vii] Ég hef því fyrir satt að Geir goði hafi verið einhvers konar goði og sé því fyrsti kirkjubóndinn hér í Úthlíð.

 

II.

Kunnugt er úr sögum hvernig það atvikaðist að íslenskir kirkjubændur snerust frá ásatrú til kristni. Goðarnir tóku sig einfaldlega saman um það á Alþingi um aldamótin 1000 til þess að halda friði innanlands og komast hjá því að Noregskonungur færi að þröngva þeim til kristni. Á síðari hluta 20. aldar, þegar íslenskir fræðimenn tóku að véfengja frásagnir fornsagna, efuðust margir um að goðastaðan hefði getað lifað slík trúarskipti af. Hver af öðrum sögðu menn: Það að goðar skyldu halda veraldlegum völdum sínum eftir kristnitöku sýnir að það getur ekki verið rétt sem sögur segja, að þeir hafi haft trúarlegt hlutverk í heiðni.

Þetta eru alger öfugmæli, að mínum dómi og raunar fleiri manna núna alseinustu árin. Einmitt það að sjálfir heiðnu prestarnir ákváðu að skipta um guð tryggði þeim áframhaldandi stöður og völd. Til samanburðar getum við tekið kristnitökur eins og þær gerðust í flestum Evrópulöndum. Víðast voru það konungar sem gengust fyrir kristnitöku, meðal annars í Noregi eins og vel er þekkt í íslenskum sögum af Ólafi Tryggvasyni og Ólafi helga Haraldssyni, og auðvitað leiddi það hvergi nokkurs staðar til þess að konungdæmin legðust niður. Það stafar ekki af því að konungar hafi verið veraldlegir valdhafar, gagnstætt íslensku goðunum. Konungar voru varla hótinu minna tengdir við guðdóminn en goðar, bæði fyrir og eftir kristnitöku, enda voru fyrstu dýrlingar Norðurlandaþjóða menn sem höfðu verið konungar í lifanda lífi, meðal annarra Ólafur Haraldsson, þjóðardýrlingur Norðmanna. Hins vegar voru heiðnu prestarnir þurrkaðir svo rækilega út í germönskum konungsríkjum Evrópu að orðið goði er nánast óþekkt annars staðar en á Íslandi. Það kemur fyrir á dönskum rúnaristum og samstofna orð er notað um presta í gotnesku. Annars kemur það varla eða ekki fyrir.[viii]

Einfaldast er að líta þannig á kristnitökuna að hún hafi falist í því að gera Krist, Hvítakrist eins og hann var gjarnan kallaður, að goði sínu í staðinn fyrir eitthvert annað goð sem menn höfðu blótað. En að vísu hljótum við að gera ráð fyrir að fyrirmenn Íslendinga um aldamótin 1000 hafi vitað að Hvítikristur var heimaríkari en önnur goð og gerði frekar þá kröfu til fólks að það hefði ekki aðra guði en hann. - Guð faðir og heilagur andi munu hafa verið lítt þekktir í Norður-Evrópu á þessum tíma. - Fólk hafði haft nægilega löng og mikil kynni af kristnu fólki og kristniboði í nágrannalöndunum til þess að komast að því. Engu að síður hlýtur kristnitakan einkum að hafa verið guðaskipti í hugum fólks. Ég ímynda mér að íslensku goðarnir hafi talið það hlutverk sitt að sjá um að þessu nýja goði væri þjónað á viðeigandi hátt. Og Hvítikristur gerði nýjar kröfur, meðal annars og kannski einkum að þeir sem stjórnuðu helgiathöfnum kynnu að syngja einhverja texta á latínu. Hvernig áttu þeir að verða við þeirri kröfu?

Nokkrar ólíkar leiðir voru hugsanlegar, einkum fjórar. Sú fyrsta og fljótlegasta var að ráða sérmenntaða útlenda farandverkamenn frá kristnum þjóðum. Að því hefur sennilega talsvert verið gert. Meira en hálfri annarri öld eftir kristnitöku koma við sögu vestur í Dölum prestar með framandlegum nöfnum sennilega enskum: Gunnfarðr og Ljúfini.[ix] Önnur leið var að ráða einhvern af þessum útlendu prestum til að kenna einhverjum innlendum strák að syngja þessu skrýtnu söngva og gera strákinn svo að presti við kirkju sína. Um þess konar presta eru rækileg ákvæði í Grágás, lögbók Íslendinga á þjóðveldistímanum:[x]

Það er manni rétt að láta læra prestling til kirkju sinnar. Hann skal gera máldaga við sveininn sjálfan er hann er sextán vetra. En ef hann er yngri þá skal hann gera við lögráðanda hans. ... Hann skal fá honum fóstur og kennslu, og svo láta ráða honum sveininum, að bæði sé óvegslaust sveini og svo frændum hans, og svo við gera sem hans barn væri. Nú vill sveinninn eigi læra og leiðist bók. Þá skal hann færa til annarra verk, og ráða honum svo til að hvortki verði af örkumbl né ílit, og halda til sem ríkast að öllu annars. Nú vill hann hverfa til námsins, og skal þar honum þá til halda. En þá er hann hefir vígslu tekið og hann er prestur, og er sá maður er honum fékk kennslu skyldur að fá honum messuföt og bækur þær er biskupi sýnist svo sem veita megi tólf mánaða tíðir með. Prestur skal fara til kirkju þeirrar er hann var lærður til, og syngja þar hvern dag löghelgan messu og óttusöng að meinlausu og aftansöng og um langaföstu og jólaföstu og imbrudaga alla. ... Ef prestur flýr kirkju þá er hann er til lærður, eða firrist svo að hann veitir eigi tíðir að sem mælt er, og varðar þeim manni skóggang er við honum tekur eða tíðir þiggur af honum eða er samvistum við hann. Jafnt varðar samvista við hann sem við skógarmann ... og skal sök þá lýsa að Lögbergi, og heimta hann sem annan mansmann. Svo skal prestur leysast frá kirkju að læra annan í stað sinn ...

Þriðja leiðin fyrir goða var að koma syni sínum í prestsnám erlendis eða hérlendis og láta hann taka við hvoru tveggja goðorði og prestskap. Það gerði sá maður sem mun hafa verið  goðorðsmaður hér um slóðir. Gissur hvíti Teitsson, sem bjó fyrst í Höfða en síðar í Skálholti. Í biskupasögunni Hungurvöku segir frá kvonfangi Gissurar og síðan:[xi] „Þeira sonr var Ísleifr; honum fylgði Gizurr útan ok seldi hann til læringar abbadísi einni í borg þeiri er Herfurða heitir. Ísleifr kom svá til Íslands at hann var prestr ok vel lærðr." Ísleifur mun síðan hafa tekið við goðorði föður síns og þar með farið fjórðu leið goðorðsmanna til að sjá fyrir prestshluta starfa síns, að láta sjálfir vígjast til prests. Á annarri öld eftir kristnitöku, tólftu öld eftir Krist, varð eða var orðið afar algengt að goðorðsmenn væru prestar jafnframt veraldlegu hlutverki sínu og tækju þannig á sig allt gamla goðahlutverkið sem goðar höfðu haft í heiðni. Um þetta er vitnisburður í Kristni sögu þar sem segir um biskupstíð Gissurar biskups Ísleifssonar, á áratugunum í kringum aldamótin 1100:[xii]

Þá váru flestir virðingamenn lærðir ok vígðir til presta þó at hçfðingjar væri, svá sem Hallr Teitsson í Haukadal ok Sæmundr inn fróði, Magnús Þórðarson í Reykjaholti ... ok margir aðrir þó at eigi sé ritaðir.

Sá sem síðastur kannaði þetta mál rækilega, Orri Vésteinsson, hefur dregið þá ályktun að meira en helmingur goðorðsmanna hafi verið vígður til prests um miðja 12. öld.[xiii] Þetta var þekkt erlendis á miðöldum að varaldarhöfðingjar af ýmsu tagi væru vígðir prestar, en hvergi mun það hafa verið nærri því eins algengt og á Íslandi á 12. öld. 

En þá var orðið skammt eftir af prestshlutverki goða. Orri Vésteinsson ræður af heimildum að áhugi goðorðsmanna á prestvígslu hafi tekið að dala á síðari hluta 12. aldar, einkum í fjölskyldum sem sóttust mest eftir veraldlegum völdum; þeir hafi ekki lengur þurft að stuðningi kirkjunnar að halda.[xiv] Og fyrir lok aldarinnar, um 1190, bannaði erkibiskup að goðorðsmenn væru vígðir til prests:[xv] „með því at eigi má bæði þjóna senn veraldar ívasan ok réttlega kennimannsnafn bera ok þá skyldu inna er kennimenn [eigu] við Guð at hafa ..." eins og segir í bréfi erkibiskups til Íslendinga. Ekki mun þessu banni hafa verið hlýtt alveg út í æsar, en þegar það var sett á voru hvort sem var ekki nema um átta áratugir eftir af þjóðveldinu, og eftir það þróaðist nýtt stjórnakerfi þar sem varla hefur komið til greina að veraldarhöfðingjar gegndu preststörfum. Sýslumenn tóku í arf veraldarvald goðorðsmanna, og lítið var um að þeir væru prestar.

 

III.

Prestskapurinn var aðeins annar hlutinn af trúarlegu hlutverki goða. Þeir áttu líka, eins og ég sagði áðan, „hofi upp halda af sjálfs síns kostnaði". Í kristni varð þetta að hlutverki kirkjubænda. Ef maður lítur á kristnitökuna, eins og ég gerði hér áðan, sem guðaskipti fremur en snögg eða alger kerfaskipti, þá virðist liggja beinast við að hofstöðunum hafi einfaldlega verið breytt í kirkjustaði. En því miður gengur ekki alls kostar vel upp að gera ráð fyrir því. Svo ótrúlegt sem það kann að vera virðast hafa verið reistar á 11. öld, á fyrstu öld kristninnar, langtum fleiri kirkjur en nokkurn tímann hafa verið á landinu síðar. Jafnvel hafa verið leiddar líkur að því að kirkjur hafi verið nánast á hverjum bæ þar sem bjargálna fólk bjó. Þær voru oft nokkuð fjarri bæjum, líklega fremur utan við tún en heima á bæjarhlaði, og hefur verið giskað á að þær hafi einkum þjónað því hlutverki að gera kirkjulega greftrun hinna dauðu mögulega án þess að breyta þeim gamla heiðna sið að grafa heimilisfólk í heimalandi.[xvi] En um aldamótin 1100, hundrað árum eftir kristnitöku, var lögleidd tíund á Íslandi, og hefur landinu þá verið skipt í kirkjusóknir, kannski smám saman fremur en allt í einu, ákveðnar kirkjur hafa fengið rétt til að heimta tíund af ákveðnum bæjum. Á slíkum kirkjustöðum var prestur, að minnsta kosti að jafnaði, einn eða jafnvel fleiri. En jafnframt þeim voru hálfkirkjur þar sem aðeins var messað annan hvern helgan dag, kirkjur þar sem var messað enn sjaldnar og bænhús þar sem engin messuskylda var.

Um fjölda prestskyldra kirkna er ekki vitað nákvæmlega því ekki liggja fyrir upplýsingar frá sama tíma úr báðum biskupsdæmunum. En snemma á 13. öld voru 220 prestskyldar kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi og tveimur öldum síðar voru taldar 108 prestskyldar kirkjur í Hólabiskupsdæmi.[xvii] Samtals eru þetta 328 sóknarkirkjur eða átta til níu sinnum fleiri en goðorðin voru samkvæmt lögum. Það gengur því engan veginn upp að sóknarkirkjur hafi komið í stað goðorða.

Þetta leggur þó ekki í rúst þá hugmynd að sóknarkirkjur og kirkjusóknir hafi komið í stað hofa og hofsókna í heiðni. Það sem er sameiginlegt forstöðu hofa, eins og þeim er lýst til dæmis í Eyrbyggju, og kirkna á fyrstu öldum kristni á Íslandi er einmitt hlutverk kirkjubóndans. Í Kristinna laga þætti Grágásar kemur skýrt fram að gert var ráð fyrir að kirkjur yrðu til á þann hátt að einstaklingar gæfu fé til að koma þeim upp og starfrækja þær, og þeir voru ábyrgir fyrir því að halda kirkju við. Þegar lagaþátturinn er saminn, sem mun hafa verið á árabilinu 1122-33, er gert ráð fyrir að búið sé að koma upp þeim kirkjum sem landsmenn þurfi. Málið er aðeins að þær haldist áfram. Því segir í lögunum:[xviii]

Kirkja hver skal standa í sama stað sem vígð er, ef má fyrir skriðum eða vatnagangi eða eldsgangi eða ofviðri eða héruð eyði að úr afdölum eða útströndum. Þar er rétt að færa kirkju er þeir atburðir verða.      

Og litlu síðar segir:[xix]

Ef kirkja brennur upp, eða lestist hún svo að aðra þarf að gera, og skal þar kirkju gera sem biskup vill, og svo mikla sem hann vill, og þar kalla kirkju sem hann vill. Landeigandi er skyldur að láta kirkju gera á bæ sínum, hvergi er fyrr lét gera. Hann skal upp hefja smíð svo að ger sé á tólf mánuðum hinum næstum þaðan í frá er kirkja lestist, svo að tíðir megi í veita ef hann of förlar. Landeigandi á að leggja fé til kirkju svo að biskup vili vígja fyrir þeim sökum. Þá skal biskup til fara að vígja kirkju þá.

Það var semsagt eins konar kvöð á jörðum þar sem kirkjur höfðu verið stofnaðar að halda þeim við og sjá um að þar færi fram skyldugt helgihald. En líklega hefur oft verið arðbært að hafa þessa kvöð á jörð sinni því að kirkjubóndi fékk að jafnaði helming tíundar úr kirkjusókninni, þann fjórðung sem var ætlaður kirkju og þann fjórðung sem var ætlaður presti, auk legkaups fyrir alla sem voru grafnir í garði kirkjunnar. Þá tóku kirkjum að safnast eignir vegna gjafa sem þeim bárust, og arður þeirra varð hluti fyrirtækisins sem hver kirkjubóndi rak. Strangt tekið hefur líklega verið ætlast til þess af hálfu kirkjunnar manna að kirkjan nyti góðs af því ef hagnaður varð af rekstrinum, en um það var ekkert bókhald gert, þannig að kirkjubændur hafa ekki einu sinni endilega vitað sjálfir hvort þeir högnuðust á rekstri kirkju sinnar eða ekki.

Hitt hefur svo sjálfsagt verið til líka að bændur legðu til kirkju sinnar meira en þeir höfðu í tekjur af henni. Menn höfðu mikla trú á því á miðöldum að Guð væri þakklátur fyrir gjafir og endurgyldi þær í öðru lífi, og það hefur vafalaust orðið til þess að margir hafi passað sig að kirkjan fengi að minnsta kosti sitt.

Í Grágás er kirkjubóndi venjulega kallaður „sá sem kirkju varðveitir" en þar kemur líka fyrir að einfaldlega sé talað um að maður eigi kirkjuna. Þar segir til dæmis:[xx]

Nú á annar maður land en annar kirkju,og lógar sá fé frá kirkju er land á. Þá á sök við hann sá er kirkju á. En ef sá lógar frá er kirkju á, og á þá landeigandi sök við hann, en sá er vill ef þeir vilja eigi sækja. Nú á maður fleiri kirkjur en eina, og skal hann skipta búningi og fé með þeim svo sem hann vill ef biskup lofar ... Sá maður er kirkju á skal til fá vaxljós og eigi færri messur en tíu milli alþinga tveggja. ... Sá maður er kirkju á skal gera að kirkju svo að í öllum veðrum sé tíðir í gerandi ...

Sú hugmynd kemur líka fram í sögum að verndardýrlingur kirkjunnar eigi hana og allar eignir sem kirkjan telst eiga. Í Sturlungu segir til dæmis frá því að Þorgils skarði Böðvarsson kom í Reykholt í Borgarfirði um miðjan júlí og lét ófriðlega því að honum þótti Borgfirðingar taka illa í að gera sig að höfðingja yfir héraðinu. Með honum var Sturla Þórðarson sagnaritari og föðurbróðir Þorgils. Þarna segir í sögu Þorgils:[xxi] „Þorgils gekk þá til manna sinna, bað þá af baki at stíga ok bauð þeim öllum þar at vera „látit hesta yðra ganga í tún." Sturla kvað eigi þat ráð at gera þat, „því at Pétr postuli á töðuna, ok hefir hann ekki til saka gert við Þorgils." Þar átti Sturla við það að Pétur postuli var verndardýrlingur Reykholtskirkju.

Raunar voru kirkjustaðir af tveimur gerðum á þessum tíma. Annars vegar voru þeir sem voru kallaðir staðir, án frekari afmörkunar, og þeir einkenndust af því að kirkjan átti oftast alla heimajörðina, en einstöku sinnum aðeins helming hennar. Staðir virðast í upphafi hafa verið hugsaðir sem eins konar sjálfseignarstofnanir undir framkvæmdastjórn prests eða presta sem sátu saðinn. En sumir þeirra sem gáfu jarðir til að stofna stað voru svo forsjálir að áskilja sér og afkomendum sínum rétt til að ráða yfir staðnum. Hins vegar voru svo kirkjustaðir sem hafa verið kallaðir bændakirkjustaðir, þar sem kirkjan átti í mesta lagi hálfa jörðina og engin spurning var um að kirkjurnar voru undir stjórn bænda, oftast þess sem bjó á kirkjustaðnum, og þetta hlutverk erfðist til afkomenda hans. Á bændakirkju­stöðum var meginreglan sú að kirkjubændur réðu prest til að annast helgihaldið ef þeir ekki spöruðu sér það með því að vígjast til prests sjálfir.

Þetta virðist hafa verið nokkuð hagkvæmt kerfi, en þegar fram í sótti fóru biskupar að gerast óánægðir með að hafa ekki eindregnara vald yfir kirkjunum og eignum þeirra.. Fyrst er vitað til að Þorlákur biskups Þórhallsson, seinna Þorlákur helgi, sem sat á Skálholtsstóli á árunum 1178-93, gerði kröfu til þess að biskupsembættið fengi yfirráð kirkjustaða og bar fyrir sig fyrirmæli erkibiskups í Niðarósi. Frá þessu segir í sögu hans og einkum frá viðskiptum hans við tvo veraldarhöfðingja, Sigurð Ormsson á Svínafelli og Jón Loftsson í Odda. Báðir höfðu reist ný kirkjuhús og þurftu að fá biskup til að vígja þau, en biskup neitaði að gera það nema þeir féllust á yfirráð biskups yfir kirkjustöðunum. Skiptum biskups við Sigurð á Svínafelli lauk svo að Sigurður lét undan og féllst á yfirráð biskups yfir staðnum, en biskup veitti Sigurði hann umsvifalaust að léni aftur, þannig að yfirráð biskups hafa kannski ekki verið mikið önnur en nafnið eitt. Í framhaldi af þessum sigri fékk Þorlákur biskup viðurkenndan rétt sinn til að ráða yfir öllum kirkjustöðum fyrir austan Hjörleifshöfða nema Þvottá í Álftafirði og Hallormsstöðum í Fljótsdalshéraði.  

Jón Loftsson í Odda þurfti að fá vígða kirkju sem hann hafði látið reisa á Höfðabrekku í Mýrdal. Þorlákur biskup kom þar við á leiðinni úr sigurför sinni fyrir austan, og bað Jón hann að vígja kirkjuna. En Þorlákur þóttist ekki geta gert það, og nú les ég úr sögunni orðaskipti sem ég veit að margir kannast við:[xxii]

Herra byskup spurði svá sem fylgjandi réttendum hvárt Jón hefði heyrðan erkibyskups boðskap um kirknaeignir.

Jón svaraði: „Heyra má ek erkibyskups boðskap, en ráðinn em ek í at halda hann at engu, ok eigi hygg ek at hann vili betr né viti en mínir forellrar, Sæmundr inn fróði ok synir hans. Mun ek og eigi fyrirdæma framferðir byskupa várra hér í landi er sæmdu þann landssið að leikmenn réðu þeim kirkjum er þeira forellrar gáfu Guði ok skilðu sér vald yfir ok sínu afkvæmi."

Þarna lauk svo að biskup lét undan og vígði kirkjuna án þess að fá yfirráð yfir henni:[xxiii]

Vægði hann því at sinni at hann sá øngvan ávçxt á vera þótt hann heldi fram, en mikinn skaða á marga vega, ok ætlaði síðarr með erkibyskups fulltingi at kirkjan mundi fá sín réttendi. En þaðan sem hann vánaði huggun at fá kómu hçrmungartíðendi, því at litlu síðarr var Eysteinn erkibyskup landflæmðr fyrir kirknamál. Þóttusk allir hér á landi mega þar eptir gera sem menn gerðu í Nóregi.

Þenna dag vígði byskup kirkju ok sçng messu, þótt þar yrði eigi hans vili framgengr. Unði hann lítt við þessi málalok. Gerðu ok allir aðrir at dæmum Jóns síðan at øngvir vildu gefa kirkjur í vald Þorláks byskups, ok því fell niðr sú kæra um hans daga.

Að því er sögur herma var þessi krafa ekki sett fram aftur fyrr en næstum öld síðar, um 1270 þegar Árni biskup Þorláksson í Skálholti hóf sömu kröfu og Þorlákur. Af því spratt næstum 30 ára löng deila biskups og leikmannahöfðingja lengst af undir forystu Hrafns Oddssonar lögmanns. Þá var Ísland komið undir vald Noregskonungs. Í Noregi var þá, eins og löngum áður, mikil valdastreita milli konungs og erkibiskups, og á Íslandi hafði oftast sitt fram sá aðili sem naut stuðnings þess aðila sem hafði betur í Noregi. Magnús konungur lagabætir kaus að halda góðum friði við kirkjuna, og á meðan hann var við völd í Noregi gekk Árna biskupi vel. Eftir að hann lést, árið 1280, kom ólögráða sonur hans til valda, Eiríkur sem fékk ómaklega viðurnefndið prestahatari. Meðan aðalsmenn stjórnuðu í nafni hans neyddist biskup til að láta flesta kirkjustaðina af höndum sér aftur. En að lokum komst á málamiðlun með sættargerð sem er kennd við Ögvaldsnes í Noregi og var endanlega gerð þar árið 1297. Samkvæmt því fékk biskup yfirráð yfir öllum kirkjustöðum þar sem kirkjan átti alla jörðina, en leikmenn, kirkjubændur, héldu yfirráðum yfir þeim sem þeir áttu að hálfu leyti eða meira. Eins og sagt er frá samkomulaginu í heimildum kemur ekki fram hvað átti að gera við kirkjustaði sem kirkjan átti ekki alla en þó meira en hálfa. En niðurstaðar var semsagt í grófum dráttum sú að biskup komst yfir staði í þröngri, kirkjulegri merkingu þess orðs, en bændur héldu bændakirkjustöðunum.

                                                                     IV.

Þetta kerfi hélst í meginatriðum um aldir. Siðaskiptin breyttu hér litlu sem engu. Þó að konungur yrði formlega æðsti yfirmaður hinnar lúthersku ríkiskirkju var haldið áfram að starfrækja kirkjuna og einstakar stofnanir hennar sem nokkurs konar sjálfseignarstofnanir, reknar á eigin eignum, sköttum og aflafé. Fram á 20. öld voru flestir prestar nokkurs konar lénsmenn sem höfðu prestaköll sín að léni.

Hér í Biskupstungum var Skálholt auðvitað staður eftir að Gissur biskup Ísleifsson gaf það til biskupsseturs. Þar að auki voru Torfastaðir staður, aðrir kirkjustaðir líklega ekki, en Úthlíð og Haukadalur komust í eigu Skálholtsstóls, eins og flestar jarðir í Tungum, og féllu því í flokk sem var stundum kallaður leigustaður eða leigujörð.[xxiv] Bræðratunga mun hins vegar alltaf hafa verið í einkaeign og því eini eiginlegi bændakirkjustaðurinn í Tungunum á velmektardögum Skálholtsstóls.[xxv] Þegar svo stólsjarðirnar voru seldar, um aldamótin 1800, komust Haukadalur og Úthlíð í einkaeign á ný.

 Bændakirkjur hafa líklega að jafnaði verið fremur minni háttar kirkjur, en svo var engan veginn alltaf. Og eftir að framfarir hófust á Íslandi áttu kirkjubændur það til að berast þónokkuð á í kirkjurekstri sínum. Meðal vitnisburða um það má nefna Þingeyrakirkju í Húnaþingi sem Ásgeir Einarsson alþingismaður og bóndi á Þingeyrum lét reisa úr höggnu grjóti á árunum 1864-77, einnig Grundarkirkju í Eyjafirði sem Magnús bóndi og kaupmaður Sigurðsson lét reisa þar árið 1905.[xxvi]

Á áratugunum eftir að Alþingi fékk löggjafarvald með stjórnarskránni 1874 var mikið bollalagt þar og víðar um endurskipulagningu á rekstri og fjármálum kirkjunnar. Fyrsti stóri áfanginn á þeirri leið voru lög um umsjón og fjárhald kirkna sem voru sett árið 1882. Samkvæmt þeim fengu söfnuðir rétt til að taka við umsjón og fjárhaldi sóknarkirkna ef eigandi eða annar umráðamaður kirkju féllist á það og safnaðarfólk samþykkti það í almennri atkvæðagreiðslu með tveimur þriðju hlutum atkvæða. Eftir það snarfækkaði bændakirkjum. Árið 1887, rétt eftir setningu laganna, voru einkakirkjur taldar 134, en árið 1930 voru þær komnar niður í 52.[xxvii] Síðan það var hafa verið gerðar ýmsar skipulagsbreytingar á rekstri kirkna, og ætla ég ekki að rekja það. En vefsíða Þjóðkirkjunnar telur nú saman í einum flokki sóknarkirkjur sem séu bændakirkjur eða í umsjá einhverra annarra en safnaða. Í Biskupstungum eru tvær kirkjur í þessum flokki, og það eru Haukadalskirkja og Skálholtskirkja.[xxviii]

 

[i] Íslenzk fornrit IV. Eyrbyggja saga. Einar Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson gáfu út  (Reykjavík, Fornritafélag, 1935), 8-9 (4. kap.).

[ii] Íslenzk fornrit IV (1935), 7, 10 (4. kap.).

[iii] Íslenzk fornrit I. Íslendingabók. Landnámabók. Jakob Benediktsson gaf út  (Reykjavík, Fornritafélag, 1968), 386 (Sturlubók, 386. kap.; Hauksbók, 340. kap.).

[iv] Íslenzk fornrit I (1968), 396 (Sturlubók, 398. kap.; Hauksbók, 355. kap.).

[v] Íslenzk fornrit I (1968), 357 (Hauksbók, 312. kap.); sbr. XII (1954), 185 (Brennu-Njáls saga, 76. kap.).

[vi] Íslenzk fornrit XII. Brennu-Njáls saga  (Reykjavík, Fornritafélag, 1954), lxi (Formáli Einars Ól. Sveinssonar).

[vii] Brynjúlfur Jónsson: „Rannsóknir í ofanverðu Árnessþingi sumarið 1893." Árbók Hins íslenzka fornleifafjelags 1894 (1894), 6-7.

[viii] Gunnar Karlsson: Goðamenning. Staða og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslendinga (Reykjvík, Heimskringla, 2004), 374-79.

[ix] Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna (Reykjvík, Sturlunguútgáfan, 1946) I, 65, 76 (Sturlu saga, 3. og 11. kap.). 

[x] Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna (Reykjavík, Mál og menning, 1992), 14-15 (Kristinna laga þáttur, 14. kap.).

[xi] Íslenzk fornrit XVI. Biskupa sögur II. Ásdís Egilsdóttir gaf út (Reykjavík, Fornritafélag, 2002), 6 (2. kap.).

[xii] Íslenzk fornrit XV. Biskupa sögur I. Síðari hluti - sögutextar. Sigurgeir Steingrímsson, Ólafur Halldórsson og Peter Foote gáfu út (Reykjavík, Fornritafélag,2003), 42-43 (17. kap.).

[xiii] Orri Vésteinsson: The Christianization of Iceland. Priests, power and social change 1000-1300 (Oxford, Oxford University Press, 2000), 188.

[xiv] Orri Vésteinsson: The Christianization of Iceland (2000), 193.

[xv] Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörnínga, dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenzka menn I (Kaupmannahöfn, Bókmenntafélag, 1857-76), 291 (nr. 72).

[xvi] Sveinn Víkingur: Getið í eyður sögunnar (Reykjavík, Kvöldvökuútgáfan, 1970), 128-36. - Orri Vésteinsson: The Christianization of Iceland (2000), 45-57.

[xvii] Íslenzk fornrit XVI (2002), 313 (Páls saga byskups, 11. kap.). - Íslenzkt fornbréfasafn IV (1897), 379-82 (nr. 414). - Magnús Stefánsson: „Kirkjuvald eflist." Saga Íslands II (1975), 79-80.

[xviii] Grágás (1992), 10 (10. kap.).

[xix] Grágás (1992), 11 (11. kap.).

[xx] Grágás (1992), 14 (14. kap.).

[xxi] Sturlunga saga (1946) II, 171 (43. kap.).

[xxii] Íslenzk fornrit XVI (2002), 167 (22. kap.).

[xxiii] Íslenzk fornrit XVI (2002), 168 (22. kap.).

[xxiv] Magnús Stefánsson: Staðir og staðamál. Studier i islandske egenkirkelige og beneficialrettslige forhold i middelalderen I (Bergen, Historisk institutt, 2000), 93, 134.

[xxv] Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók II (Kaupmannahöfn, Hið íslenzka fræðafélag, 1918-21), 285, 304, 309.

[xxvi] Kristni á Íslandi (Reykjavík, Alþingi, 2000) IV, 89, 209-10.

[xxvii] Stjórnartíðindi fyrir Ísland 1882 (Kaupmannahöfn, S.n., S.a.), 76-79. - Kristni á Íslandi (Reykjavík, Alþingi, 2000) IV, 87-88.

[xxviii] http://www.kirkjan.is/. Kirknaskrá. Skoðað 07.04.07.


Bingó í Réttinni

bingo1Fullt hús var í Réttinni í gær þegar haldið var árlegt Páskabingó.  Fjöldi veglegra vinninga voru í boði og í sumum tilvikum varð hlutkesti að ráða úrslitum. Bingó hafa verið haldin á laugardeginum fyrir páska í Úthlíð í mörg ár og hafa verið mjög vinsæl, sérstaklega hjá yngra fólki. 

Nú er blíðu veður í Úthlíð. 5 stiga hiti og logn í Hjarðarlandi kl. 10:00.

Fleiri myndir úr bingóinu hér.


Páskahlaupið í Úthlíð

hlaup1Góð þátttaka var í páskahlaupinu í Úthlíð á föstudaginn langa.  Hlaupið er skipulagt af hlaupahópnum Frískir Flóamenn á Selfossi. Hlaupin var 10 km. leið frá Geysi að Úthlíð. Eftir hlaupið var farið í heita pottinn í Hlíðalaug og síðan voru léttar veitingar í Réttinni.  Verðlaun voru veitt fyrir efstu sætin í hverjum aldurshópi karla og kvenna. 

Bestum tíma í karlaflokki náðu:
Ingar Garðarsson 42:22

Eyþór Gíslason 42:46
Magnús Jóhannsson 43:33

Fljótastar kvenna voru:
Borghildur Valgeirsdóttir 49:07
Elísabet Sigmundsdóttir 51:20
Ásdís Guðjónsdóttir 58:08

Fleiri myndir hér



Páskadagskráin í Úthlíð Biskupstungum


Þá er komin páskadagskráin í Úthlíð.  Margt skemmtilegt verður um að vera eins og sjá má hér að neðan.

ÞRIÐJUDAGUR 3. APRÍL
Útsending frá Meistaradeild Evrópu á SÝN. PSV - Liverpool kl. 18:30

MIÐVIKUDAGUR 4. APRÍL
Útsending frá Meistaradeild Evrópu á SÝN. AC Milan - Bayern Munchen kl. 18:30

FIMMTUDAGUR 5. APRÍL
Opið í Réttinni kl. 12 - 24
Sundlaug opin 11 - 16

Evrópukeppni félagsliða á skjánum kl. 18:30. Sevilla - Tottenham 

US MASTERS á SÝN eftir leik (20:30).

FÖSTUDAGURINN LANGI 6. APRÍL
Réttin opin kl 11 - 19
Sundlaug opin 11 - 16

Píslarhlaup Frískra Flóamanna komið saman við Réttina og sameinast í bíla og ekið að Geysi. ( Tímataka) Hlaupið af stað kl. 14.00 frá söluskálanum við Geysi og að Úthlíð. 10 km hlaup sem tekur á. Léttar veitingar eftir hlaup.

US MASTERS á SÝN ef áhugi 20:00

LAUGARDAGUR 7. APRÍL
Réttin opin kl. 11 -  24
Sundlaug opin 11 - 16

Kynningarfundur Golfklúbbs Úthlíðar í Réttinni kl. 11:00.  Farið yfir sumarstarfið.
Páskabingó 2007 kl 14:00 Mikið úrval af skemmtilegum vinningum og að sjálfsögðu fullt af páskaeggjum.

Leikur í spænska boltanum á SÝN 17:50

Þriðji dagur US MASTERS á SÝN kl. 19:50

PÁSKADAGUR 8. APRÍL
Réttin opin 13 - 20
Sundlaug opin 11 - 16
 
Páskamessa í Úthlíðarkirkju kl. 16.00 Prestur sr. Egill Hallgrímsson Messukaffi í Réttinni að lokinni athöfn í kirkjunni. Ræðu flytur Gunnar Karlsson sagnfræðingur og mun hann fjalla um kirkjubændur.

Lokadagur US MASTERS á SÝN kl. 18:50

ANNAR PÁSKADAGUR 9. APRÍL
Réttin opin 13 - 16
Sundlaug opin 11 - 16


Sjá einnig www.uthlid.is 
Þjónustusími og upplýsingar 699 5500

Sjáumst hress í sveitinni,
Ferðaþjónustan Úthlíð


Fyrsta bloggfærsla

Hér verða settar inn fréttir og upplýsingar frá Ferðaþjónustunni í Úthlíð Biskupstungum

www.uthlid.is

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband