7.8.2008 | 17:07
Högnhöfðagangan 2008 - Belgingur spáir björtu um helgina
Góðan dag gott fólk,
var að skoða www.belgingur.is sem er veðurvefur Háskóla Íslands og get ekki séð betur en að það verði bjart og hlýtt á Högnhöfðanum á laugardagsmorguninn.
Högnhöfðaganga
Högnhöfðinn er rúmlega 1000 metra hár og liggur eins og risastór högni í Úthlíðarhrauni og blasir við víða af Suðurlandi. Það er töluvert mikil áskorun að ganga á Höfðann, en flestir sprækir göngugarpar geta sigrast á honum.
Ferðatilhögun:
Lagt af stað frá Réttinni í Úthlíð kl.11.00 og eru þátttakendur hvattir til að mæta 15 20 mínútum fyrir áætlaða brottför.
Ekið er sem leið liggur inn Úthlíðarhraun, framhjá Kolgrímshól og inn í Högnhöfða. Vegurinn er ágætur jeppavegur og hefur nýlega verið verulega endurbættur. Ökuferðin tekur um 15 mínútur.
Þegar innúr er komið þá er bílum lagt og gengið af stað. Fyrst er gengið á Litlhöfðann, sem er framan í Högnhöfðanum og Brúarárskörð skoðuð. Svo er lagt á brattann og þeir sprækustu hlaupa upp á kattareyrun meðan hinir sem hægar fara leggja metnað sinn í að komast á tindinn.
Á toppi fjallsins er víðsýnt til allra átta og má sjá í 12 sýslur ofan hátindinum ef veður er gott.
Þegar komið er niður af fjallinu verður kærkomið að skella sér í heita pottinn í Hlíðarlaug og fá sér hressingu í Réttinni. Hamborgaramáltíð og bjór verður á tilboði fyrir göngufólkið. Næg tjaldstæði á staðnum.
Ég sendi tölvupóst á póstlistann þegar ég verð komin með örugga veðurspá. Þeir sem vilja slást í hópinn og ganga með okkur á Högnhöfðann eru velkomnir. Þeir sem hafa áhuga á að fá póst frá Úthlíð ættu að senda póst á uthlid@uthlid.is og biðja um að láta skrá sig á listann.
Gangan tekur allan daginn og því mikilvægt að vera í góðu formi og hafa með sér gott nesti.
Ef veðurspáin rætist ekki og það verður dumbungur eða þoka þá munum við að sjálfsögðu fella hana niður fyrirvaralaust, þannig að þegar þú göngugarpur góður vaknar á laugardagsmorguninn þá skatu fara inn á vef Veðurstofunnar, fletta upp veðrinu í Hjarðarlandi til að finna út hvort veður leyfir til fjallgöngu.
Fylgist með dagskránni í Úthlíð á www.uthlid.is
Bestu kveðjur,
Dísa, Úthlíð
Mynd tekin ofan af Högnhöfða 5. júní 2004. Þarna má sjá Hlöðufell, Kálfstind og fjær er Langjökull.
Ef áhugi er fyrir því að fá dagskrána senda í tölvupósti þá er best að senda tölvupóst á uthlid@uthlid.is og óska eftir skráningu á póstlistann.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.