Réttarball í Réttinni á laugardaginn

Rétt er að fara í Réttina
Rétt er að taka lagið
Rétt við réttarstéttina
sem réttað var í um daginn.

Laugardaginn 6. október verður mikið um að vera í Úhtlíð. Þá koma smalar af fjalli og það verður réttarball í Réttinni með hljómsveitinni Tilþrif.

Veðurspáin er góð en spáð er sól og hita í sveitinni og því tilvalið að skella sér í góða fjallgöngu og njóta haustlitanna.


Réttarballið í Réttinn
Þá er komið að árlegu réttarballi í Réttinni og nú mæta allir. Hljómsveitin Tilþrif treður upp með nýja og kraftmikla söngkonu í borddi fylkingar. Hljómsveitin spilar hressilega balltónlist og má búast við miklu fjöri.
Aldurstakmark á ballið er 20 ár og er aðgangseyrir 1500 kr.
Leigubílar á staðnum – pantið bíl í sími 6995500

Úthlíðarhraun smalað
Á föstudaginn verður riðið í Brekkurnar og árleg smalamennska á heimalöndum Hlíðabænda fer fram. Má búast við því að fátt fé verði á vegi smalanna þar sem engin kind var rekin til fjalla í vor.

Gefandi og lauflétt haustlitafjallganga í sólinni
Nú er rétti tíminn til að fara í skemmtilega fjallgöngu og njóta haustlitanna. Gangið sem leið liggur upp Miðfellsveg og þar upp úr sumarbústaðalandinu og haldið áfram meðfram vegslóðanum. Stefnan er tekin á Miðfell, litla fellið sem er mitt á milli Bjarnarfells og Högnhöfða. Fylgið slóðanum sem beygir til austurs í áttina að Bjarnarfelli og gangið með fram fjallinu í nokkra hríð þangað til slóðin liggur yfir tunguna sem liggur til suðurs frá fjallinu.
Þá er tilvalið að leggja í hann upp á fjallið. Þarna er greiðfært til uppgöngu því kjarrið er lágvaxið, eiginlega bara lyng. Þarna er falleg laut sem kallast Skjónulaut.
Þegar upp á fjallið er komið opnast ótrúleg ævintýraveröld skrýdd öllum litum jarðarinnar.
Já, Miðfell leynir á sér.
Það er dálítill galdur að finna sér leið niður af Miðfelli því að kjarrið er ótrúlega erfitt og mikill farartálmi. Svo koma gilin líka á óvart, það er lauflétt að koma sér í töluverð vandræði þar. En þau eru ekki beint þannig að fólk lendi í lífsháska, það var líka rætt um létta og skemmtilega göngu, en ekki krefjandi klungur.
Léttast er að fara niður sömu leið og upp var gengið. Einnig er tilvalið að fara niður af fjallinu að norðan og ganga svo meðfram fjallinu og til byggða.

Þetta er allt ávísun á ljómandi góða matarlyst.

Svo er aldrei skemmtilegra að fara á gott ball en eftir hressandi fjallgöngu.

Golfvöllurinn, sjoppan og Réttin verða opin alla helgina frá kl. 11. Það er vetrargjald í golf núna og kostar 1000 kr. fyrir gesti og gangandi.

Réttarsúpa á tilboði í Réttinni.

Fylgist með dagskránni á www.uthlid.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband