22.4.2007 | 11:20
Loftið fyllist fuglasöng
Get ekki látið hjá líða að lýsa því sem fyrir augu og eyru ber hér í Úthlíð í dag. Það væri gaman að geta sett inn hljóðfæl með tónlistinni sem hljómar svo fallega.
Tjaldur, stelkur, skógarþröstur, hrossagaukur og hinn svarti krummi eru á ferli. Ég heyrði reyndar ekki í spóanum, en það getur samt vel verið að hann sé kominn líka. Það er nú alltaf mikill sigur á vorin þegar hann mætir og fer að vella grautinn sinn.
Núna er ákaflega stillt veður, logn og þoka. Dásamlegt veður til útivistar og líta til vorboðanna.
Fékk þessa mynd lánaða hjá FSU en Hrafn Óskarsson hefur náð að mynda þetta fallega Tjaldspar.
Tjaldsfjölskylda hefur búið um áraraðir í túninu fyrir neðan kirkjuna og við lónið sem er þar fyrir framan. Vonandi fáum við að njóta návistar þeirra áfram.
Nánar um tjaldinn á náttúrufræðisíðum FSU
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.