15.7.2010 | 11:42
Tjaldstæðin í Úthlíð opin - dansleikur laugardagskvöld
Núna leika veðurguðirnir við hvern sinn fingur og leyfa okkur að njóta þess hvað það er dásamlegt að búa á Íslandi og ekki nóg með það, besta veðrið verður hjá okkur eins og vant er.
Mikið verður um dýrðir hjá Golfklúbbnum í Úthlíð um helgina, en meistaramót klúbbsins verður haldið með pompi og prakt föstudaginn 16. og laugardaginn 17. júlí.
Golfvöllurinn verður lokaður fyrir aðra en mótsgesti á föstudag, en á laugardag munum við opna völlinn um leið og síðasta holl hefur leik á seinni 9.
Mótið er spilað þannig að fyrri daginn skrá keppendur sig í rástíma, en seinni daginn er raðað niður í holl eftir árangri fyrri dagsins. Klúbbfélagar hafa einir rétt til að spila í mótinu.
Það er ánægjulegt að segja frá því að mótið er alveg stútfullt, alls eru 64 keppendur skráðir til leiks. Hægt er að láta skrá sig á biðlista hjá Þorsteini í síma 891607 því það er alltaf hætta á að einhver forfallist af svona stórum hópi.
Á föstudagskvöld verður opið hús í Réttinni og munum við vera með hálfleikstölur og nánari upplýsingar um niðurröðun í holl á laugardag.
Þeir sem eru þreyttir og vilja láta stjana við sig geta pantað sér mat í Réttinni, súpu og góðgæti af grillinu.
Á laugardag heldur golfið áfram og munu meistarar fara út hver á fætur öðrum og lenda þeir í ráshópum eftir getu. Að mót loknu fer fram verðlaunaafhending við hátíðlega athöfn. Oft hafa úrslit verið spennandi og lokin ekki ráðist fyrr en að loknum bráðabana.
Um kl.23.00 mætir hljómsveitin Orginal í Réttina og leikur fyrir dansi fram á nótt. Hljómsveitin spilar skemmtilega tónlist sem er fyrir alla aldurshópa.
Látið nú eftir ykkur að mæta í Réttina með félögunum og taka léttan snúning. Réttarskutlan verður á svæðinu, en hægt er að hringja í síma 6995500 og panta far á ballið.
Aðgangur að dansleiknum kostar 2000 kr. og er aldurstakmark 20 ár.
Næg tjaldstæði eru í Úthlíð og er tilvalið fyrir fjölskyldur að koma og njóta veðurblíðunnar þar. Sundlaugin er opin og grillið í Réttinni er opið alla helgina.
Nánari upplýsingar um þjónustuna í Úthlíð eru á www.uthlid.is
Útlit fyrir gott helgarveður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.